Fyrirlesturinn mun innihalda hvatningu, æfingar, kennslu, upplifun og fróðleik, um hvernig við getum gjörbreytt eigin líðan fyrst og fremst, framtíð okkar og allra í kringum okkur, samstöðu og samkennd og þannig lífsgæðunum í heilu samfélagi, með því að elska meira.
Að velja ástina í staðin fyrir að leyfa einhverju að hafa truflandi, særandi og neikvæð áhrif á sig er spennandi áskorun sem passar svo vel núna, því við vitum hversu mögnuð ástin er.
Við erum búin að uppgötva hvað er mikilvægast í lífinu og með það að leiðarljósi, að við sjálf, líðan okkar, tengsl og samskipti við fólkið okkar er það sem skiptir mestu máli þá er auðvelt að velja að vanda sig við að láta þessa allra mikilvægustu hluti hafa meira vægi, setja í þá jákvæða athygli og okkar allra fallegustu orku og nálgun – alltaf.
Allir óska þess að líða vel og það eina sem gerist ef við veljum ávallt kærleikann er að okkur fer mjög líklega að líða betur, það er ávinningurinn. Þegar okkur líður vel þá komum við vel fram, allt sem við tökumst á við verður auðveldara og við óskum þess innst inni að öllum líði svona vel. Það er í kærleiksríkri vellíðan sem við óskum þess fyrir allt mannkynið að allir fái að líða gott og notalegt líf.
Margir eiga erfitt með að viðurkenna það að þegar okkur líður illa þá verður okkur meira sama um það að einhverjum öðrum líði illa, við teljum okkur vera að sýna samkennd, segjumst finna til með viðkomandi en erum í raun í sam-vorkunn sem er orka sem viðheldur ástandinu því í vanlíðaninni vantar okkur kraft, hugrekki og réttu orkuna til að styðja og styrkja aðra.
Þess vegna er svo mikilvægt að velja alltaf að líða vel, sama hversu mikilli vanlíðan við erum í, og það eina sem kemur okkur úr vanlíðaninni, erum við sjálf. Það gerist á augnablikinu sem við veljum að ætla að líða vel þrátt fyrir ríkjandi ástand hvort sem við erum að kljást við vandamál eða sársauka, því við vitum að það er það besta í stöðunni. Að velja að vera í kærleika og finna þakklæti og blessun yfir einhverju og draga fram betri líðan yfir því góða og láta það flæða yfir alla tilveruna, líka þetta erfiða og slæma verður þýðingarmikill vendipunktur í lífi hvers og eins, það gjörbeytir öllu.
Vellíðan byggir svo mikið á því hversu mikið og oft við veljum að elska.
Það er auðvelt að elska þegar allt gengur vel og elska alla sem haga sér vel og við hugsum ekkert útí það að allt er svona gott og dásamlegt af því að við leyfum ástinni að flæða um okkur óhindrað og það er sú tilfinning sem gerir allt svo guðdómlegt, fallegt, auðvelt og notalegt.
Við teljum það vera af því að allt gengur vel en það þarf örlitla flækju inní þetta augnablik til að spilla því og þá er eins og við slökkvum á ástinni og við tekur allt annað ástand sem hefur keðjuverkandi áhrif. Ef á hinn bóginn okkur mundi takast að halda í kærleikann þó svo að það gerist eitthvað miður gott eða jafnvel hörmulegt þá komum við í veg fyrir að snjóboltinn rúlli af stað með tilheyrandi afleiðingum.
Það er sú tækni, aðferð, leið eða hvað sem við köllum það að hafa visku, getu og vilja til að velja að vera áfram í kærleikanum alveg sama hvað gerist í kringum okkur sem er allra besta fjárfesting sem þú gefur þér. Það stórkostlega við hana er að þú kannt hana nú þegar en þarft bara að byrja að rifja hana upp eða æfa hana og það verður einmitt á æfingunum sem þú áttar þig á að þú munt vilja vera í kærleikanum, þú munt finna hversu ómótstæðilegur og lífsbætandi hann er.
Þú munt skilja að það er eins og að henda peningum út um gluggann að velja að henda orkunni þinni sem er líðanin þín í að dvelja í reiði, pirringi, sársauka, vonbrigðum, vanþóknun, fordómum, sorg og öðrum neikvæðum tilfinningum. Allar þessar tilfinningar innihalda líðan sem er hræðileg og jafnvel hræðilegri en atburðurinn sem henti þér í þessa líðan fyrst til að byrja með.
Af hverju ætti þér að langa til að finna þessar vondu tilfinningar dag eftir dag þegar þér fannst hræðilega vont að lenda í atbuðrinum sem olli þeim ? Var ekki nóg að finna þær þá.