Skip to main content

Hver er Ósk

Þegar ég var tæplega 35 ára var ég örmagna og leið illa andlega og líkamlega en þjösnaðist áfram og vonaði að ég mundi upplifa kraftaverk og vakna heil, einn daginn.

Brjósklos í mjóbaki hafði gert mér erfitt fyrir ég var búin að kljást við það með hléum í 15 ár og gerði mér enga grein fyrir hvað það hafði haft mikil áhrif á persónuleikann minn, heilsu og lundarfar yfir höfuð.

Viðstöðulaus vanlíðan og vonbrigði juku streituna og á endanum var ég með vanvirkt ónæmiskerfi sem gerði það að verkum að það fór að bera á ofnæmi fyrir fjölmörgum fæðutegundum, meltingartruflunum, orkuleysi og öðrum vandamálum. Persónulega þoldi ég ekki sjálfa mig þar sem hegðun mín framkoma og lífssýn voru orðin virkilega brengluð og neikvæð.

Í kringum mig hefur alltaf verið urmull af yndislegu fólki sem bæði benti mér á leiðir og hjálpaði mér í mínu daglega amstri þar sem ég var orðin óhæf til margra verka síðustu árin í þessu ástandi.
Eitthvað innra með mér sagði að ég ætti að geta heilað mig sjálf þó svo orðið heil hafi kannski ekki verið orðið sem flögraði í huga mér þá, en það tók mig langan tíma að trúa á bækurnar sem mér voru réttar með sögum af fólki sem hafði bætt líf sitt og líðan með því að breyta hugarfari og viðhorfum.

Þannig kynnist ég óhefðbundnum leiðum til sjálfshjálpar.
Já í mínu tilfelli þurfti áfall niðurbrot og ára langa þrautagöngu til lækna, sjúkraþjálfara, hnykkjara ofl. til þess að ég tæki skrefið inní þá dýrð sem andlegi heimurinn býður uppá.

Ég hafði kynnst Yoga og heillaðist af því að geta stundað hreyfingu sem hugsanlega mundi hjálpa mér að ná heilsunni á ný. Ég elskaði Yogatímana hennar Önnu Björns og veit núna að þeir björguðu geðheilsu minni í það minnsta.
Það er tæplega hægt að stunda Yoga án þess að fá áhuga á andlegum málefnum, persónulegum þroska, hugleiðslu og öllu sem við kemur sálartetrinu og andlegum vexti. Svo ekki leið á löngu þar til ég sökkti mér í bækurnar sem góðar vinkonur höfðu bent mér á, fann námskeið og annan fróðleik sem hjálpaði mér að öðlast betri líðan og jafnvægi, enda veitti mér ekki af.

Ég er svo lánsöm að vera fædd og uppalin í Vestmannaeyjum sem er ævintýraveröld fyrir börn og finnst ég eiga bestu foreldra og fjölskyldu í heimi. Æskan var glitrandi gleði. En ég lærði fljótt að ég varð að vera sterk, þurfti að geta allt og helst kunna og vita allt líka og fannst það þrúgandi þar til ég áttaði mig á því að það var bara ég sem hafði ekki öryggi né hugrekki til að vera sú sem ég var.

Ég var nefninlega mjög oft öðruvísi, passaði ekki alveg og þó ég muni ekki eftir að það hafi valdið mér angist þá mótaði það mig mikið
svo það hlaut að koma að því að ég veldi aðra leið en flestir.

Ég flutti til Sardegnu á Ítalíu fljótlega eftir fjölbrautarskóla og kynntist tilvonandi eiginmanni eignaðist síðan þrjú yndisleg börn sem hafa gætt líf mitt svo mikilli gæfu og gersemum og kennt mér meira en allir skólarnir til samans. Lífið er yndislegt og ég óskaplega blessuð og þakklát fyrir allt sem það hefur fært mér.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Dale Carnegie í kringum þrítugt og þá kviknaði á vitund minni um þessa löngun til að sjá alla eiga ljómandi fallegt líf. Þar lærði ég að það er hægt er að breyta ansi mörgu í eigin fari, en lengi vel hélt ég að ég væri bara “svona” og að það er ekkert hægt að gera í því. Það olli gríðarlegum straumhvorfum í mínu lífi að skilja að ég get valið hvernig ég vil vera og það er auðvelt að öðlast betri líðan og meiri hamingju.

Margt af því sem ég taldi vera hluta af mínum karakter voru ekkert annað en margendurtekin og þjálfuð hegðun sem ég gæti vanið mig af eða vanið mig á hegðun sem ég væri ánægðari með.
Þvílík snilld þessi hugur.

Ég vann með Konráði Adholps í nokkur ár og hjá honum lærði ég að „æfingin skapar meistarann“ og ákvað að verða meistari í að breyta sjálfri mér með því að æfa mig í að vera eins og mig langaði að vera.

„Þegar nemandinn er tilbúinn birtist kennarinn“ og það eru sko orð að sönnu því eftir að hafa velt því fyrir mér um tíma hvað ég gæti lært til að hjálpa fólki að skapa meiri lífsgæði, rakst ég á viðtal við Guðna Gunnarsson Rope Yoga hönnuð og lífskúnstner með meiru.

Það hefði verið ógerlegt fyrir mig að leggja í þetta stórkostlega ferðalag inná við sem Guðni hreif mig í ef ég hefði ekki haft leiðbeinanda eins og hann. Ég fór að taka stærri og viðameiri skref í andlegum þroska og fékk hvatningu og ráð um það hvernig ég gæti látið minn hinsta draum verða að veruleika.

Guðni hvatti mig til að taka kennaranámið í Rope Yoga í janúar 2004, fram að þeim degi sem ég skráði mig í það nám hefði ég ekki trúað að ég ætti eftir að vera viðriðin Yoga á annan hátt en að stunda þá helsueflandi hreyfingu.

En svona getur lífið komið manni skemmtilega á óvart, og ég hugsa að það gæti átt við um þig líka. Við höldum að við vitum hvert við stefnum og hvað okkur langar, mig langaði að kenna fólki að verða sjálfbært um að heila sig og ég taldi að ég þyrfti að fræða fólk til að virkja þennan guðdómlega eiginleika sem við búum öll yfir, en ég vissi ekki að Yoga er svo sannarlega góð byrjun.

Þegar ég byrjaði að kenna Rope Yoga fékk ég tækifæri til að taka eftir því hvernig andleg vandamál birtast í líkamanum hjá mörgum og skildi fljótt að þessi leið var mjög góður grunnur fyrir mig til að lesa í og skilja fólk betur. Draumur minn um að hjálpað öllum að breyta og laga hugarfar, hegðun, trú og líðan til að öðlast almennt heilbrigði jókst og ég fann knýjandi þörf til að læra og vita meira.

Að lifa draumalífinu

Þannig að ég demdi mér heilshugar á öll þau námskeið sem ég fann og gat sótt, meðal annars :

  • Höfuðbeina og spjaldhryggsnám,
  • Reiki,
  • Awareness coaching, hjá IONS
  • nám í Viðnámsteygjum sem ég umbreytti í Happy Yoga
  • Orkunuddi, þar sem fætur eru notaðar til að nudda líkamann
  • Orkuheilun, byggt á heilunarformi dr Trivedi
  • Hugleiðslutækni,
  • Kúndalíni,
  • Ho´oponopono og ýmis styttri námskeið.
  • Ég held alltaf að ég sé að fara í síðasta námið en svo verður þorstinn og forvitnin alltaf meiri og meiri.

Í öll þau ár sem ég hef kennt og unnið sem þerapisti og ráðgjafi hef ég lært og séð að allir geta lifað draumalífinu sínu, sama hvaða bakgrunn, uppeldi, vandamál, sjúkdómar eða áföll kunna að hafa komið upp á lífsleiðinni.

Það skiptir engu máli hvað þú ert að glýma við þér getur liðið betur, þú getur svo miklu meira en þú heldur og þú býrð yfir mætti og krafti sem er engu líkur en þú þarft kannski stuðning til að sjá alla þá stórkostlegu eiginleika sem þú býrð yfir. Og það er einmitt það sem ég elska svo óskaplega mikið að fylgjast með dásamlegum manneskjum eins og þér byrja að njóta, líða betur, fagna lífinu og finna tilganginn.

Það er mín dýpsta þrá að kenna og hjálpa þér og hreinlega öllum að læra að elska sig og geta þar með elskað aðra og notið þeirrar gæfu sem þú öðlast þegar þú ferð að hlusta á hjartað þitt. Það er ómetanleg fjárfesting að tengjast innsæinu, finna tilganginn og máttinn sem við búum öll yfir en við heyrum ekki í, í amstri dagsins, ég elska að hjálpa fólki að heyra þá dýrmætu rödd sem er innra með þér, og treysta henni til þess að leiða þig áfram, styðja og styrkja.

Ég elska að hjálpa fólki eins og þér að finna kraftinn þinn og ástríðuna fyrir lífinu og feta þá leið sem hentar þér til að blómstra og njóta samskipta við sjálfa/n þig og aðra og umfram allt eiga kærleiksríkt líf með þér og þínum.
Ég samdi því þetta árs langa prógram sem tekur á öllum sviðum lífsins svo ég gæti verið alveg hand viss um að þú sjáir hversu mögnuð manneskja þú ert, hvað þú býrð yfir stórkostlegum eiginleikum, hvað þú hefur stórt og fallegt hjarta til að elska allt og alla í kringum þig, svo þú náir að byrja að tjá þig eins og þú óskar þér, fyrirgefir þér, finnir þakklæti í erfiðleikunum og öðlist sterkt innsæi sem leiðir þig það sem eftir er lífsins inní gæfuríka framtíð, með fullkomið sjálfstraust og orku til að galdra fram ómótstæðilegt líf stútfullt af hamingju og ást.

Í dag bý ég á Balí, því ég hef alltaf látið alla mína drauma rætast og að mínu mati er það besti staður í heimi til að glæða mín verk og sköpun fallegri og hvetjandi orku.
Hér bjó ég til netnámskeiðið Lærðu að elska þig og kennaranámið í þerapíunni og held væntanlega áfram að skapa ný námskeið, því það er mitt líf og yndi.

Því segi ég við þig :
Vertu velkomin í líf sem er töfrum líkast.
Þannig verður lífið þitt þegar þú byrjar að elska þig.

Hlakka til að fara í þetta ferðalag með þér
„Lærðu að ELSKA þig“